<$BlogRSDURL$>

fimmtudagur, apríl 29, 2004

Sól sól skýn á mig!

Eftir leikskólann í gær fór ég beint í klippingu. Ég fer alltaf til sömu klippikonunar sem heitir Svea. Hún kann að klippa svona krullað hár. Ég var rosalega dugleg og Svea klippti og klippti þannig að núna er ég orðin svo fín og bara með lítið hár. Ég fékk sleikjó í verðlaun og sundferð.

En eftir leikskólann í gær fór ég til ömmu Svölu. Hún lét renna í pottinn og við svömluðum í honum til kl 19:00. Það var svo gott veður að við bara steingleymdum hvað tíminn leið. Allt í einu sá mamma að við vorum allt of seinar að sækja pabba í vinnuna.

Ég hef alveg gleymt að segja ykkur að ég er alveg farin að sofna sjálf á kvöldin. Ég fæ eina eða tvær sögur og svo kyssi og og knúsa mömmu og pabba nokkrum sinnum, þá er ég tilbúin að sofna. Brynja fær reyndar alltaf að vera hjá mér en vitið þið að stundum er hún svo óþekk að ég verð bara að senda hana framm. En það er bara þegar hún er alltaf að trufla mig!


(0) comments

laugardagur, apríl 24, 2004

Skýin


Við skýin felum ekki sólina af illgirni

Við skýin erum bara að kíkja á leiki mannanna.

Við skýin sjáum ykkur hlaupa (úúúú) í rokinu,

Klædd gulum, rauðum og grænum og bláum regnkápum,

eins og regnbogi meistarans, regnbogi meistarans.

Við skýin erum bara grá, bara grá.

Á morgun kemur sólin, hvar verðum við skýin þá?

Hvar þá, hvar þá..

Hvað verður um skýin þá.


æji ég vona að sólin komi á morgun svo ég geti verið úti að leika, það er ekkert gaman þegar það er rok og rigning.
Ég hef greynilega misskilið þetta með sumarið... ég hélt að það ætti að vera alltaf sól!!

kveðja,
Mæja

(0) comments

miðvikudagur, apríl 21, 2004

Sumarið kemur á morgun!

Loksins er sumarið að koma. Núna skulu mamma og pabbi fá að standa við allt það sem þau sögðust ætla að gera í sumar. Ég hef oft fengið að heyra: "já þegar sumarið kemur... já ja í sumar" og núna er sumarið að koma á morgun. Ég man næstum allt það sem við ætluðum að gera t.d að hjóla í leikskólann, borða úti í garði og kaupa sumarkjól.

Gleðilegt sumar c",)

(0) comments

mánudagur, apríl 19, 2004

Ekkert nýtt að frétta. Íþróttaskólinn var á laugardaginn ég stóð mig mjög vel. Er mjög dugleg að halda jafnvægi svo hleyp ég rosalega hratt og get farið í marga kollhnísa í einu! Svo fórum ég og mamma til langömmu Guðnýju og fengum hjá henni pönnsur. Hún er algjör töframaður í pönnukökubaksti! síðan tókum við nokkra Olsen-Olsen sem ég vann eiginlega alltaf!! Amma var svo góð, hún gaf okkur rosalega flotta hrærivél. Ég fékk því að baka á sunnudeginum. Mér finnst bestar súkulaðikökur því var ákveðið að gera svoleiðis. Síðan fékk ég að sleikja skálina ummm rosalega gott!!

Súkkulaðikveðja Mæja.

(0) comments

föstudagur, apríl 16, 2004

Ég ræð!!

Þetta hefur verið mjög erfið vika. Á hverjum degi þegar ég vakna bið ég um að fá að vera heima. Mér finnst leiðinlegt í leikskólanum og vil ekki fara þangað. Pabbi og mamma trúa mér ekki því konurnar segja að mér líði mjög vel hjá þeim. Það er samt ekki málið það er leiðinlegt í leikskólanum af því þar þarf ég að hlýða og má engu ráða. Svo þegar ég kem heim reyni ég að ráða öllu. En þessa vikuna hafa mamma og pabba verið mjög erfið við mig og segja að ég megi ekki ráða öllu. Þó að ég öskri eins hátt og ég get, stappi niður fótunum kröftulega, hræki og sparka vilja þau ekki hlýða mér! En helgin verður vonandi betri, kannski við getum bara öll ráðið.

Amma Svala kom í gærkvöldi til að passa mig. Hún lét mig fara að sofa alveg sjálfa. Ég er svo dugleg. Svo vakti ég mömmu og pabba í nótt til að segja þeim fréttirnar. Ég er ekki alveg búin að ákveða mig hvort ég ætli að fara sjálf að sofa líka í kvöld, það kemur bara í ljós!

Íþróttaskólinn er á laugardaginn, ég hef ekkert farið núna legni lengi. Það verður gaman að sjá Sigurgeir vin minn aftur. Ég hlakka mikið til!!

sjáumst hress!!
kv mæja

(0) comments

laugardagur, apríl 10, 2004

Jesú kemur á morgun

Ég er búin að vera úti að leika mér í páskafríinu. Hjóla og gera drullumall. Núna er ég búin að læra að ég má ekki fara í burtu þegar ég er ein úti að leika. Ég og Sævin gerðum mömmur okkar pínu hræddar um daginn þegar við stungum af. Við vorum ekkert að fara mjög langt en þurftum samt að fara yfir götuna. Við vorum nefnilega að leita að ömmu Svölu.

Á morgun er páskadagur, þá dettur jesú niður af himnum. Hann dettur niður á götuna ég ætla að hitta hann og fá mér svo páskaegg.

Gleðilega páska!

(0) comments

sunnudagur, apríl 04, 2004

Það var afmælisveisla hjá Sævin í dag. Þegar afmælið var búin fórum við út að hjóla. Ég er búin að fá nýtt hjól með hjálpardekkjum. Nú hjóla ég næstum alla daga. Sævin, Agnes og Gummi eiga líka hjól og við hjólum öll saman hring eftir hring fyrir utan blokkirnar okkar. Þegar ég vil komast inn get ég sjálf dinglað bjöllunni okkar því ég er orðin svo stór :o) Hurðin er reyndar of þung fyrir mig, en mamma nær bara í mig.

Ég fékk að sofa hjá ömmu Svölu í nótt, ég var búin að biðja um það alla vikuna þannig að hún gat ekki sloppið. Henni finnst samt notalegt að hafa mig stundum og mér finnst æði þegar ég hef hana bara fyrir mig eina. Hún er líka amma MÍN!

Annars hefur vikan liðið nokkuð hratt og ég hef ekki mikið verið að gera af mér. Það er engin íþróttaskóli þessa helgi og ekki næstu en þá verða allir krakkar að borða páskaegg. Ég er ekki búin að kaupa mitt, það verður gert samt fyrir páska.

Bless kex kornflex!

(0) comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?